Miklar umræður um þvagleggsmálið á bloggvef mbl.is

Miklar umræður hafa skapast á bloggvef Morgunblaðsins og fleiri bloggvefi um mál konu sem hefur kært lögregluna á Selfossi til ríkissaksóknara fyrir kynferðislegt ofbeldi þegar þvagsýni var tekið með þvaglegg án hennar samþykkis fyrr á þessu ári. Konan var einnig ákærð fyrir brot gegn valdsstjórninni og var mál hennar tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands í vikunni.

Margir hafa gagnrýnt vinnubrögð lögreglunnar harðlega en að sama skapi hafa margir tekið upp hanskann fyrir hana. Segja má að menn hafi skipað sér í tvær fylkingar í þessu máli, þvagleggssinna og andstæðinga.

Margir hafa lýst yfir hneykslun sinni í þessu máli og segja að lögreglan hafi gengið of langt. Sumir tala um valdníðslu og hafa bloggarar m.a. gagnrýnt sýslumanninn á Selfossi fyrir að reyna að réttlæta aðgerðir lögreglu í samtali við fjölmiðla.

Á hinn bóginn hafa sumir bloggarar bent á að fólk verði að taka afleiðingum þess ef það sest drukkið undir stýri. Konunni hafi það verið í sjálfvald sett að vera samvinnuþýð við lögregluna, þ.e. að gefa lögreglunni þvagsýni svo hægt sé að sanna hvort hún hafi gerst brotleg við lög eður ei.

Margir bloggarar eru sammála um það að konan hafi verið beitt ofbeldi en á móti benda þvagleggssinnar á að það sé ekki síður ofbeldi að setjast ölvaður undir stýri.

Frétt Blaðsins um málið má lesa hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert