Enn er leitað að Þjóðverjunum tveimur sem leitað hefur verið að á Svínafellsjökli. Um fimmtíu manns eru nú við leit. Fyrr í dag fannst slóð sem talin er vera eftir tvo menn. Slóðin lá yfir Svínafellsjökulinn í svipaðri hæð og tjöld mannanna og lá hún í átt að Hrútsfjallstindum. Hópur björgunarsveitamanna fylgdi í dag slóðinni þar til hún hvarf og eru þeir nú á leið til baka. p> Lögreglumenn fóru að tjöldum til að skoða fótspor sem voru í kringum þau svo hægt væri að bera þau saman við fótspor úr slóðinni. Ekki eru enn komnar niðurstöður úr þeim samanburði.
Skyggni var gott í morgun og flaug þyrla Landhelgisgæslunnar yfir. Svæðið er afar erfitt yfirferðar fyrir leitarmenn og djúpar og miklar sprungur í ísnum. Leitað verður fram í myrkur í dag, en líklega fjölgar í hópnum á morgun, og stendur þá til að fínkemba visst svæði.
Þyrlan Eir var notuð við leitina í dag en gert er ráð fyrir að þyrlan Gná verði notuð í kvöld til að flytja björgunarmenn til og frá leitarsvæðinu. Þá mun þyrlan taka þátt í leitinni á morgun. Ráðgert er að halda leitinni áfram af fullum krafti um helgina, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um framhaldið eftir það.
Á morgun er áætlað að halda leit áfram með öllum þeim mannskap sem er tiltækur. Áhersla verður lögð á að leita vel á svæðinu umhverfis tjöld Þjóðverjanna, sendur verður hópur á þekkta gönguleið á Hrútsfjallstinda, ef veður leyfir verður flogið með hóp upp á Hvannadalshnjúk og könnuð verða hættuleg svæði, svo sem svelgir, sprungur, íshellar og fleira. Einnig verða vélsleðar notaðir við leitina uppi á Öræfajökli.