Þrir teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna

Þrír karlar á þrítugsaldri voru teknir fyrir aka undir áhrifum fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þá var hálfþrítug kona tekin fyrir ölvunarakstur í nótt en för hennar var stöðvuð í Grafarholti.

Einn maður var stöðvaður í Kópavogi í gærmorgun en hann átti mjög erfitt með að halda bíl sínum á veginum. Segir lögregla, að maðurinn megi teljast heppinn að hafa ekki lent í alvarlegu umferðaróhappi en hann var nýbúinn að aka börnum sínum í leikskóla þegar lögreglan stöðvaði för hans.

Um hádegisbil var annar karlmaður handtekinn á öðrum stað í Kópavogi en sá yfirgaf bíl sinn og reyndi að komast undan laganna vörðum. Maðurinn komst hins vegar ekki langt en hann forðaði sér inn í nærliggjandi fyrirtæki og náðist þar skömmu síðar.

Þriðji maðurinn var svo handsamaður í Breiðholti nokkru eftir hádegi en í bíl hans fundust einnig ætluð fíkniefni. Maðurinn hefur áður verið sviptur ökuleyfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert