Bæjarráð Vestmannaeyja kynnti í dag tillögur, sem ætlað er að vega upp á móti niðurskurði í aflaheimildum á nýju fiskveiði ári sem hefst 1. september nk.
Á blaðamannafundi, sem haldinn var um borð í Vestmannaey VE, kynnti Elliði Vignisson, bæjarstjóri, tillögur bæjarráðsins, 21 að tölu. Eru fjórtán þeirra sértækar fyrir Vestmannaeyjar og sjö sem einnig eru hugsaðar fyrir önnur sjávarpláss sem eru standa í sömu sporum og Vestmannaeyjar. Sagði Elliði þær unnar í samstarfi við bæjarstjóra þeirra.
Aflaheimildir í þorski skerðast um þriðjung sem þýðir að hlutur Vestmannaeyja fer úr tæpum 12 þúsund tonnum í um 8 þúsund tonn. Sagði Elliði að 3,6 milljarðar myndu hverfa úr veltu í sveitarfélaginu á ári og um 11 milljarðar á þremur árum. „Það samsvarar rekstri Vestmannaeyjabæjar í um sex ár,“ sagði Elliði.
Ein helsta krafan er að framkvæmdum verði flýtt við ferjuhöfn í Bakkafjöru og hún verði tilbúin 2009 en ekki árið 2010 eins og gert er ráð fyrir í samgönguáætlun. Áhersla er líka lögð á að rannsókna- og skólastarf verði eflt ásamt því að horft sé til að fjölga opinberum störfum í Eyjum, ekki síst störfum sem tengjast sjávarútvegi á einhvern hátt. Einnig er bent á nauðsyn þess að hlaupa undir bagga með útgerðum sem horfa á umtalsverða tekjulækkun. Þá vilja Vestmannaeyingar að byggðarkvóti og línuívilnun verði aflögð.