Á annað hundrað björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið að störfum í allan dag við erfiðar aðstæður að Þjóðverjunum tveimur sem er saknað en leitin hefur enn engan árangur borið.
Á vef Landsbjargar kemur fram að búið er að fínleita svæði sem er um einn km í radíus í kringum staðinn þar sem tjöld mannanna fundust, sem og mögulegar göngu- og klifurleiðir á Hvannadalshnjúk og Hrútsfjallstinda. Gengið hefur verið á Hvannadalshnjúk, farið á hann á vélsleðum og flogið yfir hann. Hópur klifrara reyndi að komast á Hrútsfjallstinda en varð frá að hverfa þar sem ekki var gerlegt að komast alla leið upp. Þá var flogið með hóp á tindana en ófærur voru slíkar að þyrla LHG þurfti að sækja hann aftur.
Undanfarnar nætur hefur snjóað á tindum og hafa snjóflóð fallið á leitarsvæðinu auk þess sem nokkur ísun var. Leitarsvæðið er því afar hættulegt, að því er fram kemur á vef Landsbjargar.
Síðasti leitarhópurinn kom niður af jöklinum um klukkan 22:00 og búið er að senda björgunarsveitir til síns heima í hvíld.
Í fyrramálið verður haldinn sameiginlegur fundur vettvangsstjórnar og þeirra sem unnið hafa í Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð og í framhaldinu verður tekin ákvörðun um næstu skref.