Áhugi foreldra barna í Sæmundarskóla í Grafarholti á skólabúningum var miklu meiri en foreldrafélagið gerði ráð fyrir. Við skólasetningu nú í vikunni keyptu foreldrar 85 prósenta barnanna skólabúninga sem foreldrafélagið og foreldraráðið buðu upp á í samráði við skólastjórnendur.
Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segir þetta ekki koma sér á óvart. „Þar sem þetta hefur verið reynt hefur ríkt mikil ánægja. Skólabúningar auka samheldni og hafa að margra mati komið í veg fyrir einelti út af efnamun eða einhverju slíku. Frumkvæðið hefur hins vegar alltaf komið frá foreldrum eða skólastjórnendum."
Björn, sem í mörg ár hefur barist fyrir því að skólabúningar verði teknir upp, segir meirihluta borgarstjórnar leggja áherslu á að þeir sem vilja taka upp skólabúninga verði aðstoðaðir með einhverjum hætti. „Það er í höndum menntaráðs að útfæra það," segir hann.
Í Áslandsskóla í Hafnarfirði hafa 98 prósent yngri nemendanna gengið í sérstökum skólafatnaði frá árinu 2003. Skólastjórinn, Leifur Garðarsson, kveðst mjög ánægður með fyrirkomulagið.
Nánar í Blaðinu