Fresturinn til að gera tilkall til landgrunns senn á enda

Eftir Heiðu Björk Vigfúsdóttur - heida@bladid.net

Um sjö milljónum ferkílómetra, sem jafngildir stærð Ástralíu, kann að verða skipt upp víðs vegar um heiminn. Er hugsanlegt að auðlindir allt frá olíu og gasi til erfðaefnis lífvera á hafsbotni sé að finna á þessum svæðum.

Rússneski fáninn sem búið er að koma fyrir á sjávarbotni undir hafísnum á norðurpólnum er ein vísbending þess að ríki séu farin að ranka við sér og gera sér grein fyrir frestinum. Unnið er að undirbúningi greinargerðar Íslands til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu, og er af hálfu Íslands gert tilkall til landgrunns á Reykjaneshrygg, á Hatton Rockall-svæðinu og í suðurhluta Síldarsmugunnar. Mælingum vísindamanna á landgrunnssvæðunum, sem samsvara þrettánföldu landsvæði Íslands, er lokið og stendur nú yfir úrvinnsla mæligagna.

Þau ríki sem gera ekki tilkall til landgrunns fyrir frestinn eiga á hættu að missa viðurkenningu Sameinuðu þjóðanna á kröfunni. Breytingar á yfirráðasvæðum sem kunna að verða þegar fresturinn rennur út í maí árið 2009 munu að öllum líkindum verða síðustu miklu breytingarnar á eignarhaldi svæða, að sögn Lars Kullerud, ráðgjafa hjá GRID-Arendal-stofnun umhverfisverkefnis Sameinuðu þjóðanna (UNEP) í Noregi. Sagði hann í samtali við Reuters að mörg lönd gerðu sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt málið væri.

Yannick Beaudoin, sem vinnur einnig hjá GRID-Arendal-stofnuninni, segir að fyrir þessi fimmtíu ríki sé árið 2009 lokafrestur til að tryggja sér vald yfir svæðum án þess að þurfa að berjast fyrir því.

Fréttaskýring í Blaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert