Leituðu til nágranna í neyð

Harpa og Orri sonur hennar
Harpa og Orri sonur hennar Ljósmynd Adam Eliasen
Eftir Unu Sighvatsdóttur

unas@mbl.is

„Ég endaði á því að banka upp á hjá konu sem ég þekki ekki neitt og spyrja hana hvort hún vildi passa fyrir mig," segir Harpa Rut Hilmarsdóttir, kennari í Reykjavík og móðir tveggja drengja, 14 mánaða og tveggja og hálfs árs gamalla. Harpa hefur nú ráðið sig í vinnu eftir að hafa verið í fæðingarorlofi undanfarið ár. Á tímabili leit þó út fyrir að hún neyddist til að segja upp starfinu áður en það hæfist, því yngra barnið kemst hvergi að í dagvistun. Eldri drengurinn fékk pláss á leikskóla 20 mánaða gamall en sá yngri hefur verið á biðlista hjá dagmóður um nokkurra mánaða skeið án árangurs.

"Fólk hlær oftast nær að manni ef maður biður um pláss eftir 6 mánuði," segir Harpa. "Þær dagmæður sem eru góðar eru svo umsetnar að maður kemst ekki að nema maður skrái barnið helst í móðurkviði." Tilraunir til að ráða au pair voru einnig til einskis og sáu Harpa og eiginmaður hennar því fram á að annað þeirra þyrfti áfram að vera heimavinnandi nema þau gripu til örþrifaráða. Þau vissu að í næsta húsi byggi barngóð kona sem væri mikið heima við á daginn. "Ég endaði sem sagt á því að ganga mjög þungum skrefum til nágranna míns sem ég þekki ekkert og sagðist myndu borga henni hvað sem væri ef hún passaði son minn, þó ekki væri nema einn dag í viku."

Við tók mikið púsluspil sem small að lokum þannig að nágrannakonan tekur við drengnum tvo daga í viku, annar afi hans passar einn dag í viku og hinum tveimur skipta þau hjónin á milli sín með því að koma heim frá vinnu. "Við erum bara heppin að fá þessa yndislegu konu og afa barnsins til að hlaupa í skarðið en þetta á ekki að þurfa að vera svona."

Vantar önnur úrræði

"Af hverju fæ ég niðurgreiðslu ef önnur manneskja annast börnin mín en ekki ef ég vil gera það sjálf?" spyr Harpa. Henni hefur verið sagt að sonur hennar komist í fyrsta lagi að næsta haust á sama leikskóla og eldri bróðir hans sækir, þá 26 mánaða gamall. |

Sjá fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert