Telur um einelti að ræða

Ragnar Ólafur Magnússon, sem á helminginn í veitingahúsinu Q bar á horni Laugavegar og Ingólfsstrætis, segir að undirskriftasöfnun sem Erna Valdís Valdimarsdóttir stóð fyrir meðal íbúa í Þingholtunum hafi einungis beinst að Q bar, en ekki öðrum veitingahúsum á sömu gatnamótum. Telur Ragnar að ekki hafi stafað meira ónæði frá sínu veitingahúsi en hinum.

Þrír stórir skemmtistaðir á gatnamótunum

"Hún hefur lagt staðinn í einelti frá því honum var breytt í stað fyrir samkynhneigða," sagði Ragnar. "Okkur þykir kannski skrítnast að á þessum gatnamótum eru þrír stórir skemmtistaðir, Prikið, Sólon og Q bar, og hún ræðst bara á okkar stað þar sem er kannski rólegasta fólkið í bænum!"

Ragnar segir að opnunartími Q bars hafi verið lengdur í upphafi ársins þegar rekstrinum var breytt. Þrátt fyrir það sé barnum yfirleitt lokað fyrst af fyrrgreindum þremur skemmtistöðum. Hann segir að gestir Q bars fari vissulega út að reykja vegna reykingabannsins, en það geri einnig gestir veitingahúsanna Priksins í næsta húsi og Sólons hinum megin við götuna.

Ragnar segir að eigendur Q bars hafi átt góða samvinnu við lögregluna og einnig viljað eiga samstarf við Ernu en hún hafi ekki þegið það.

Segja staðinn löglegan

"Við höfum haft samband við hana og spurt hvað við getum gert. Hún vildi ekki ræða neitt við okkur og var hálfpartinn með skæting. Við höfum einnig talað við lögregluna og borgaryfirvöld og teljum staðinn okkar vera löglegan," sagði Ragnar. Hann segir að ævinlega hafi strax verið brugðist við ábendingum og tilmælum lögreglunnar varðandi Q bar, m.a. um að loka gluggum svo minna hljóð bærist frá staðnum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert