Ragnar Ólafur Magnússon, sem á helminginn í veitingahúsinu Q bar á horni Laugavegar og Ingólfsstrætis, segir að undirskriftasöfnun sem Erna Valdís Valdimarsdóttir stóð fyrir meðal íbúa í Þingholtunum hafi einungis beinst að Q bar, en ekki öðrum veitingahúsum á sömu gatnamótum. Telur Ragnar að ekki hafi stafað meira ónæði frá sínu veitingahúsi en hinum.
Ragnar segir að opnunartími Q bars hafi verið lengdur í upphafi ársins þegar rekstrinum var breytt. Þrátt fyrir það sé barnum yfirleitt lokað fyrst af fyrrgreindum þremur skemmtistöðum. Hann segir að gestir Q bars fari vissulega út að reykja vegna reykingabannsins, en það geri einnig gestir veitingahúsanna Priksins í næsta húsi og Sólons hinum megin við götuna.
Ragnar segir að eigendur Q bars hafi átt góða samvinnu við lögregluna og einnig viljað eiga samstarf við Ernu en hún hafi ekki þegið það.