Mennirnir tveir sem voru fluttir fljótlega eftir rútuslysið í dag með sjúkraflugi á Landspítalann háskólasjúkrahús eru báðir á gjörgæslu. Annar þeirra fór beint í aðgerð vegna meiðsla á báðum öxlum en hinn var með talsverða áverka út frá högginu er rútan fór út af veginum í Bessastaðabrekku í Fljótsdal. Hvorugur þeirra er í lífshættu að sögn Þóris Njálssonar, vakthafandi læknis á LSH.
Um sjöleytið í kvöld kom flugvél Landhelgisgæslunnar með sjö manns til viðbótar á Landspítalann háskólasjúkrahús vegna áverka sem þeir hlutu í bílslysinu. Að sögn Þóris eru þeir enn í rannsókn og útlit að flestir þeirra þurfi að vera á sjúkrahúsi í nótt. Hlutu þeir meðal annars beinbrot og einhverjir þurfa að fara í aðgerð strax í fyrramálið. Að sögn Þóris var strax brugðist við þegar fréttist um slysið og auka mannskapur kallaður út á LSH. Bæði læknar og hjúkrunarfræðingar og hefur sá mannskapur dugað til þess að sinna þeim sem þurfti að flytja suður.