Fjallað um Bobby Fischer í El País

Frá einvígi Fischers og Spasskís í Laugardalshöll árið 1972
Frá einvígi Fischers og Spasskís í Laugardalshöll árið 1972 mbl.is/Kristinn Benediktsson

Þann 12. ágúst sl. birtist í spænska blaðinu El País grein um skákmeistarann Bobby Fischer eftir blaðamanninn Leontxo García, sem dvaldi hér á landi fyrr á árinu og kynnti sér hagi Fischer. Í greininni er reynt að varpa ljósi á hið flókna samband Íslands og Fischers, en þar kemur m.a. fram að veikindi hans hafi valdið því að hann hafi slitið sambandi við sinn forna vin Sæmund Pálsson, og telji hann nú „útsendara leyniþjónustu Bandaríkjamanna, CIA”.

Tilefni þess að García kom hingað til lands var það að í ár náði Fischer 64 ára aldri, jafn mörgum árum og reitirnir á skákborði. García ræddi við Fischer á árunum 1991 og 1992, þegar Fischer og Spasskí áttust við í annað sinn í Belgrad, hann reyndi svo árangurslaust að ná tali af Fischer meðan á Íslandsdvöl hans stóð, en ræddi við ýmsa sem tengjast honum hér á landi.

Í greininni rekur hann aðdragandann að því að Fischer kom hingað til lands árið 2005, segir frá einvígi Fischers og Spasskí árið 1972 og þeirri skoðun margra Íslendinga að Fischer hafi átt mikið inni hjá þjóðinni fyrir að hafa komið Íslandi á kortið.

Þá hefur García eftir viðmælendum sínum að Fischer lifi nánast eins og í klaustri hér á landi, hann gangi lítið, hafi fitnað og láti helst sjá sig á bókasöfnum og í fornbókaverslunum. Ísland segir blaðamaðurinn að sé afskekkt og umburðarlynt og viðeigandi að Fischer njóti efri áranna hér í friði, þrátt fyrir ummæli hans, sem farið hafa fyrir brjóstið á mörgum, m.a. um gyðinga, þar sem hann hefur gengið svo langt að neita því að helförin hafi átt sér stað.

García segir þá fáu vini sem Fischer eigi hér á landi ekki vilja ræða opinberlega um hann, en þeir séu sammála um að það virðist ómögulegt að svo greindur maður geti haft svo brjálæðislegar hugmyndir. Reynt hafi verið að sannfæra hann um að hann hafi rangt fyrir sér, án nokkurs árangurs, og að hugsanlega sé of seint fyrir hann að leita sér læknishjálpar. Þá segir García að Fischer óttist að læknar muni vinna sér mein og að þráhyggja hans hafi meira segja orðið til þess að hann hafi slitið vinskap sínum við Sæmund Pálsson, þann sem hvað mest hafi gert til að aðstoða Fischer, og saki hann nú um að vera „útsendara CIA”.

Sæmundur, sem var einn þeirra sem hvað ötullegast vann að því að fá Fischer hingað til lands sagði í samtali við mbl.is að það sé dapurlegt að annars góður vinskapur skuli fjara út á þennan hátt. Hann hafi hann ekki rætt við nokkurn mann sem tengist leyniþjónustunni, síðan hann aðstoðaði við að túlka í starfi sínu sem lögreglumaður þegar Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna, kom hingað til lands árið 1986.

Hann segist síðast hafa rætt við Fischer í febrúar síðastliðnum og að þá hafi farið ágætlega á með þeim, þótt Fischer hafi verið ósáttur við gerð heimildarmyndar um frelsun hans úr fangelsi í Japan, sem m.a. var gerð í samvinnu við bæði Sæmund og Fischer.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert