Hugsanlega dregið úr starfsemi meðferðardeildar Stuðla

Slökkvilið að störfum á Stuðlum í gær.
Slökkvilið að störfum á Stuðlum í gær. mbl.is/Júlíus

Sérfæðingar Fasteigna ríkisins eru nú að meta það tjón sem varð í eldsvoðanum á meðferðarheimilinu Stuðlum í Grafarvogi í gær og í framhaldi af því mun væntanlega skýrast hversu langan tíma viðgerðir á húsnæðinu munu taka. Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir ljóst að gríðarlegar skemmdir hafi orðið á neyðarvistunarálmu húsnæðisins og að þó svo að flestir útveggir virðist heilir megi í raun tala um endurbyggingu álmunnar.

Bragi segir að á þessu stigi málsins leggi hlutaðeigandi aðilar höfuðáherslu á tvennt í málinu, annars vegar það að reynt verði að fyrirbyggja að hættuástand, svipað því sem skapaðist í gær, komu upp aftur og hins vegar að fundin verði bráðabrigðalausn á húsnæðisvanda neyðarvistunarinnar.

„Þetta er í annað skipti sem það kemur upp eldur í þessari byggingu og í bæði skiptin hafa upptök eldsins verið rakin til skjólstæðinga okkar,” sagði Bragi í samtali við blaðamann mbl.is í dag. „Það er því ljóst að þetta er hætta sem við búum við. Við munum því biðja sérfræðinga Eldvarnaeftirlitsins að fara yfir það hvort eitthvað megi betur fara í viðvörunarkerfi hússins og fara yfir það sjálf hvort við getum hert eftirlit enn frekar en það er nú þegar mjög mikið."

Bragi segir það þó brýnasta verkefnið að finna bráðabrigðalausn á húsnæðisvanda neyðarvistunarinnar. Helst komi til greina að flytja neyðarvistunina yfir í þann hluta hússins sem meðferðardeild stofnunarinnar hafi til afnota en að það þýði að draga verði tímabundið úr starfsemi hennar. Þetta sé ekki góður kostur en þó líklega sá besti kosturinn í stöðunni. „Þetta væri að sjálfsögðu mjög slæmt fyrir alla aðila, skjólstæðinga okkar, starfsfólk, foreldra og barnaverndaryfirvöld enda er þetta kerfi okkar þegar yfirkeyrt,” sagði Bragi. „Eins og staðan er nú er hins vegar brýnasta verkefnið það að koma neyðarvistuninni fyrir þar sem við getum alls ekki án neyðarvistunar verði".

Bragi segir að það muni a.m.k. taka nokkrar vikur að endurbyggja húsnæðið en að verði sá kostur valinn að færa neyðarvistunina yfir í húsnæði meðferðardeildarinnar verði líklega hægt að opna neyðarvistunina að nýju innan nokkurra daga. Þá segir hann að einungis hafi verið skyldutrygging á húsnæðinu enda kaupi ríkið aldrei annað en skyldutryggingu. Það sé því ljóst fyrir að fjárhagslegt tjón ríkisins vegna eldsvoðans sé mikið.

Pláss hefur verið fyrir fimm unglinga í neyðarvistun að Stuðlum og segir Bragi deildina oftar en ekki vera fulla. Þá segir hann mikla mildi að einungis tveir unglingar hafi verið í neyðarvistuninni er eldurinn kom upp í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert