N1 kaupir Staðarskála

Fjölskyldan á Stað í Hrútafirði hefur selt allt hlutafé sitt í Staðarskála ehf. til N1, en gengið var frá þessum kaupum nýlega. Fyrir átti N1 um fjórðungshlut í Staðarskála ehf. Fyrirtækið rekur í dag Staðarskála, Veitingaskálann Brú og Gistihúsið Staðarflöt.

Fram kemur á fréttavefnum Strandir.is, að N1 hafi áform um að reka félagið í óbreyttri mynd þar til að nýr vegur í botni Hrútafjarðar verður tilbúinn. Þá sé gert ráð fyrir að sameina Staðarskála og Veitingaskálann Brú við ný gatnamót þjóðvegar 1 og Djúpvegar undir merkjum Staðarskála og N1.

Bræðurnir Eiríkur og Magnús Gíslasynir, ásamt Báru Guðmundsdóttur frá Ófeigsfirði, eiginkonu Magnúsar, stofnuðu Staðarskála árið 1960. Börn Magnúsar og Báru hafa tekið þátt í rekstri Staðarskála.

Staðarskáli er einn af stærri vinnuveitendum í Húnaþingi vestra en reksturinn skapar um 30 ársstörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert