Grunur leikur á að flestir þeirra erlendu verkamannanna, sem lentu í rútuslysinu í Bessastaðafjalli í gær, séu ekki skráðir til starfa hér á landi með löglegum hætti. Þetta kom fram í kvöldfréttum Útvarpsins þar sem Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, staðfesti upplýsingarnar. Gísli Rafnsson, stöðvarstjóri Arnarfells, sagði í samtali mbl.is að verið sé að vinna í málum mannanna með Vinnumálastofnun. Ekkert sé öðruvísi en það eigi að vera.
Fram kom í fréttum Útvarps, að þetta geti haft áhrif á sjúkratryggingar mannanna og hugsanlegar bætur í kjölfar slyssins. Vinnumálastofnun hefur málið til rannsóknar.
Gísli Rafnsson, stöðvarstjóri Arnarfells, sagði í samtali við mbl.is ekki vita annað en að erlendu verkamennirnir séu skráðir hér með löglegum hætti. Hann segir að verið sé að vinna í málum mannanna með Vinnumálastofnun, og sú vinna sé í eðlilegum farvegi. „Allir þessir samningar, sem við gerðum á sínum tíma, eru gerðir með okkar lögfræðingum, og á eðlilegan máta. Ég veit ekki til þess að það sé neitt í þessu sem er öðruvísi en það á að vera.“
Hann segir fyrirtækið hafa gert eðlilega verktakasamninga við mennina og að það standi við allar sínar greiðslur. Hann bendir á að það hafi fjölgað mikið á svæðinu á skömmum tíma. „Frá því í miðjum júlí hefur fjölgað um 150 manns á svæðinu,“ segir Gísli og bendir á að það taki tíma að ganga frá pappírsmálum, ekki síst vegna sumarfría.