Karlmaður um fertugt var tekinn í tvígang fyrir ölvunarakstur á laugardag. Fyrst var hann stöðvaður í Kópavogi árla morguns og færður á lögreglustöð en sleppt nokkru síðar. Maðurinn settist aftur ölvaður undir stýri um kvöldmatarleytið en var stöðvaður skömmu síðar.
Að sögn lögreglunnar settist maðurinn aftur ölvaður undir stýri um kvöldmatarleytið. Seinni ökuferðin stóð þó stutt yfir en maðurinn var stöðvaður á Sæbraut í enn verra ástandi en fyrr. Hann nánast valt út úr bílnum og átti í miklum erfiðleikum með að standa í fæturna.
Maðurinn var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða á staðnum og var síðan látinn sofa úr sér áfengisvímuna í fangageymslu lögreglunnar.
Átta aðrir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Einn þeirra er karlmaður á fimmtugsaldri en með honum í bíl voru barn hans og barnabarn.
Fimmtíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs, að sögn lögreglunnar. Í öðru þeirra var um að ræða tvítugan pilt sem ók á vegstólpa í Garðabæ aðfaranótt sunnudags. Pilturinn nefbrotnaði og fékk skurð á höfuðið og þá er bíllinn stórskemmdur.
Auk ölvunar var pilturinn að senda sms-skilaboð þegar bíll hans hafnaði á stólpanum.
Fjórir voru teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna um helgina og þá stöðvaði lögreglan sjö aðra ökumenn sem höfðu ýmist þegar verið sviptir ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi.