Áhöfnin á hrefnuveiðiskipinu Dröfn RE veiddi tvær hrefnur í gær og verður þeim landað á Ísafirði í dag. Hrefnurnar voru veiddar í tengslum við vísindaveiðiáætlun Hafrannsóknastofnunar og á nú eftir að veiða fjögur dýr í vísindaskyni.
Á heimasíðu hrefnuveiðimanna segir, að kjötið af dýrunum muni fara beina leið í vinnslu og sé stefnt að því að koma kjötinu í verslanir fyrir helgi.
Enn eru 23 dýr eftir af atvinnukvóta Félags hrefnuveiðimanna, sem úthlutað var á síðasta ári fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Einar K. Guðfinsson, sjávarútvegsráðherra, sagði í síðustu viku að ekki yrði gefinn út nýr hvalveiðikvóti fyrir atvinnuveiðar fyrr en markaðir fyrir hvalkjötið hefðu opnast.