Mikill erill var hjá lögreglunni í Reykjavík í nótt og eru allar fangageymslur fullar. Þar eru þó ekki drykkjumenn að þessu sinni heldur fyrst og fremst grunaðir þjófar og fíkniefnaneytendur.
Um klukkan fjögur í nótt var par stöðvað á förnum vegi og fundust munir úr innbroti, sem framið var í byrjun ágúst, í bíl þeirra. Þá voru tveir menn handteknir vegna gruns um að þeir tengdust innbroti í hús við Esjugrund en vísbendingar, um að þeir hefðu verið þar að verki, fundust á vettvangi.
Einn var einnig fluttur í fangageymslu, þar sem hann var ekki viðræðuhæfur vegna fíkniefnanotkunar en sá maður fannst ásamt öðrum manni í fjörunni við Gróttu þar sem þeir höfðu fest bíl sem þeir voru á.