Foreldrar þurfa ekki síður að fylgjast vel með hreyfingu og hreyfingarleysi unglinga en yngri barna enda hefur sýnt sig að börn hreyfa sig minna eftir því sem þau verða eldri. Stór hluti þeirra nær ekki ráðlagðri hreyfingu að sögn Gígju Gunnarsdóttur, verkefnisstjóra hjá Lýðheilsustöð.
„Það sem skiptir máli er að vera vakandi, sama á hvaða aldri krakkarnir eru, og hvetja þá til að velja hreyfingu fremur en hreyfingarleysi. Börnum er kannski eðlislægra að vera virk þegar þau eru yngri en ef þú átt ungling þarftu að fylgjast með honum og hjálpa honum að meta hvort hann hreyfi sig nóg,“ segir Gígja.
Ýmsir þættir valda því að það dregur úr hreyfingu barna með hækkandi aldri að sögn Gígju. „Það verður svo mikil samkeppni um tímann eftir því sem þau verða eldri. Þá fara þau jafnvel að detta út úr skipulögðu íþróttastarfi og dagleg hreyfing snarminnkar með aldrinum. Svo eru alltaf gerðar meiri og meiri kröfur til þeirra, meðal annars í skólanum sem krefst æ meiri hluta af tíma þeirra,“ segir hún.
Jafnvel klæðaburður og tíska getur staðið í vegi fyrir hreyfingu hjá þessum aldurshópi að sögn Gígju.
Nánar í Blaðinu