Þótt komurnar vegna ofbeldisverka á Landspítalann í Fossvogi um síðustu helgi hafi verið margar og áverkarnir ljótir er það mat Ófeigs Tryggva Þorgeirssonar, yfirlæknis á slysa- og bráðadeildinni, að umræðan um ástandið í miðbænum sé byrjuð að koma óorði á ofbeldið. Hann segir þá sem koma með handarbrot hætta að stæra sig af því að hafa lamið einhvern.
„Því fylgir gríðarlegur höggþungi að kýla mann í andlitið. Það eru ekki bara andlitsbeinin sem brotna, heldur einnig höndin sem kýlt er með. En nú segjast allir hafa kýlt í vegg. Ég tel þetta merki um að vegsemdin sem fylgdi fylliríisslagnum sé horfin og að kominn sé neikvæður stimpill á hann,“ segir Ófeigur.
Komum vegna ofbeldisverka um helgar var jafnframt farið að fækka að mati Ófeigs og þess vegna kom erillinn um síðustu helgi honum á óvart.
Nánar í Blaðinu