Oddur segir að í sumar hafi verið mikill straumur af starfsfólki inn á vinnusvæði Arnarfells. Um miðjan ágúst benti Oddur Vinnumálastofnun á að skráningu starfsmanna á svæðinu væri e.t.v. ábótavant og var það hvatinn að því að starfsmenn stofnunarinnar könnuðu málið.
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, staðfestir að ekki séu allir mennirnir skráðir og hann óttast að þetta kunni að hafa áhrif á þau lögformlegu réttindi sem mennirnir eiga að hafa, m.a. almanna-, sjúkra- og slysatryggingar.
Starfsmenn Vinnumálastofnunar fóru í síðustu viku í vinnubúðir Arnarfells til að athuga hvernig skráningu starfsmanna þar væri háttað. Ekki fengust upplýsingar hjá þremur undirverktökum Arnarfells og þótti því rétt eftir að slysið varð í fyrradag að athuga hvort verkamennirnir, sem í rútunni voru, væru skráðir líkt og lög gera ráð fyrir. Í ljós kom að um 20 rútufarþeganna voru ekki skráðir og segir Gissur að talið sé að þeir séu starfsmenn undirverktakanna. Eru þetta fyrirtækin Hunnebeck, GT-verktakar og Spöng en Gissur segir að ekki sé hægt að fullyrða að öll fyrirtækin hafi átt óskráða starfsmenn í rútunni. "Þetta eru samt það margir einstaklingar að það geta ekki verið eðlilegar ástæður fyrir þessu," segir Gissur og segir að skráningin sé einföld og taki yfirleitt ekki meira en einn dag. Jafnframt sé uppi vafi hvort greidd hafi verið launatengd gjöld vegna vinnu mannanna.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.