Sýslumaðurinn á Selfossi, Ólafur Helgi Kjartansson, hefur lagt til við embætti vegamálastjóra að hámarkshraði á Biskupstungnabraut við Borg í Grímsnesi verði lækkaður úr 90 km hraða niður í 70 km hraða. Sveitarstjórn Grímsnes og Grafningshrepps leggur áherslu á að tryggja fjármagn frá samgönguyfirvöldum fyrir hringtorgi á gatnamótunum við Borg. Slík framkvæmd er ekki inn á núgildandi vegaáætlun. Þetta kemur fram á fréttavefnum sudurland.is.
Sveitarstjórnin lagði fram tillögu þess efnis haustið 2005 eftir alvarlegt umferðarslys á gatnamótunum þar sem karlmaður lét lífið. Í síðasta mánuði lést síðan annar ökumaður í árekstri á vegkaflanum.