Leitað á ný á Svínafellsjökli

Björgunarsveitarmenn frá Björgunarfélagi Hornafjarðar voru sendir í morgun á ný til leitar á Svínafellsjökli þar sem leitað var að tveimur Þjóðverjum í síðustu viku. Þá hefur Eir, þyrla Landhelgisgæslunnar, verið send austur. Samkvæmt upplýsingum frá Ingólfi Einarssyni, varaformanni Björgunarfélags Hornafjarðar, fundust vísbendingar um að Þjóðverjarnir hafi verið á ferð neðar á jöklinum en áður var talið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Höfn í Hornafirði fundust í gærkvöldi bakpoki og ísskrúfur, og þóttu verksummerki benda til þess að gengið hefði verið frá búnaðinum, hugsanlega í þeim tilgangi að létta byrði.

Þyrlan mun flytja björgunarsveitarmennina upp á jökulinn þaðan sem þeir munu leita leiðina milli tjaldbúða Þjóðverjanna og þess staðar sem munirnir fundust. Einnig mun þyrlan leita úr lofti.

Umfangsmikil leit fór fram í síðustu viku að Matthias Hinz og Thomas Grundt, sem lýst var eftir þegar þeir mættu ekki í flug sem þeir áttu bókað frá landinu þann 17. ágúst. Ákveðið var að hætta leitinni á laugardag þar sem ekki þótti forsvaranlegt að halda leitinni lengur áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert