Verið er að dreifa ársskýrslu Kópavogsbæjar í hús í Kópavogi um þessar mundir. Með henni fylgir tölvudiskur þar sem farið er yfir lykiltölur úr rekstri bæjarins á árinu 2006 í töluðu máli og lifandi myndum. Myndina má einnig skoða á heimasíðu Kópavogs www.kopavogur.is.
Gunnar Birgisson, bæjarstjóri, segir í tilkynningu að tilgangurinn sé að auðvelda Kópavogsbúum að kynna sér helstu atriði varðandi fjárhagsstöðu bæjarfélagsins síns á einfaldan og aðgengilegan hátt.
Í ávarpi til bæjarbúa með ársskýrslunni 2006 segir Gunnar meðal annars að fjárhagur Kópavogs sé traustur og hafi verið byggður upp jafnt og þétt. Rekstrarafgangur bæjarins hafi verið yfir fjögur þúsund og sex hundruð milljónir króna og eiginfjárstaðan um og yfir fimmtíu prósent. Þetta sé rekstrarárangur sem ekkert annað sveitarfélag geti státað af.