Ofurölvi ökumaður stöðvaður í Hvalfjarðargöngum

Lögreglan á Akranesi segir, að ökumaður, sem stöðvaður var í Hvalfjarðargöngunum á sunnudag, hafi virst ofurölvi en lögreglumenn höfðu árangurslaust reynt að stöðva för hans á Kjalarnesi. Tveir bílar lentu í árekstri í göngunum í kjölfar aðgerða lögreglunnar.

Lögreglan á Akranesi segir að lögreglumaður á frívakt hafi orðið var við ölvaða manninn og reynt að stöðva för hans á Kjalarnesi, en tókst ekki. Ökumaðurinn hafi rásað á veginum og valdið stórhættu.

Umferð í Hvalfjarðargöngunum stöðvaðist meðan á lögregluaðgerðinni stóð og var bíl ekið aftan á annan bíl sem hafði stöðavðst. Þá komu lögreglumenn af höfuðborgarsvæðinu á vettvang og rannsaka málið.

Í fréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi gagnrýndi ökumaður bílsins, sem lenti í árekstrinum í göngunum, lögregluna og sagðist ekki hafa séð lögreglubílinn og ekki gert sér ekki grein fyrir því í tæka tíð að bíllinn á undan væri ekki á hreyfingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert