Öryrkjabandalagið fagnar þeirri niðurstöðu siðanefndar Sambands íslenskra auglýsingastofa, að auglýsingar Öryggismiðstöðvarinnar með Lalla Johns hafi brotið gegn siðareglum sambandsins hvað snerti almennt velsæli og hafi verið til þess fallnar að valda ástæðulausum ótta meðal almennings.
Öryrkjabandalagið segir, að það hafi verið óviðunandi vinnubrögð af hálfu Öryggismiðstöðvarinnar og auglýsingastofunnar Himins og hafs, að sýna einstakling í því ljósi sem gert var í umræddum auglýsingum. Segist bandalagið lýsa furðu á viðbrögðum Öryggismiðstöðvarinnar við úrskurði siðanefndar en í yfirlýsingu frá fyrirtækinu reyni það að hvítþvo hendur sínar og varpa allri ábyrgð á málinu á persónuna Lalla Johns.
„Eins og glöggt má lesa í niðurstöðunni beinist úrskurðurinn klárlega að Öryggismiðstöðinni og auglýsingastofunni en ekki Lalla. ÖBÍ gerir að sjálfsögðu engar athugasemdir við það að öryrkjar eða aðrir afli sér tekna. Það verður hins vegar að gera þær kröfur til auglýsenda að þeir misnoti sér ekki aðstöðu sína og bága stöðu annarra og virði almennar siðareglur," segir Öryrkjabandalagið.