Segir Vinnumálastofnun aldrei hafa beitt dagsektum

Formaður Verkalýðsfélags Akraness segir að Vinnumálastofnun hafi aldrei beitt dagsektum frá því lögin um skráningu erlendra starfsmanna tóku gildi og segir að það verði að teljast afar athyglisvert í ljósi þess að skráningum samkvæmt lögunum hafi lengi verið verulega ábótavant.

Fram kemur á vef Verkalýðsfélags Akraness að vinnuveitandi hafi 10 daga til að tilkynna og skila inn ráðningarsamningi þegar nýr erlendur starfsmaður hefur störf hjá fyrirtæki. Þá er bent á að lögin kveði einnig á um að Vinnumálastofnun hafi heimild til að beita dagsektum ef fyrirtæki trassa að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunar að 10 dögum liðnum. Sektin getur numið allt að 50.000 kr. á dag.

Þá segir að það hafi ekki komið formanni félagsins á óvart að grunur væri á að erlendu starfsmennirnir sem lentu í rútuslysinu í Fljótsdal á sunnudaginn sl. hefðu ekki allir tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Fram kemur á vef félagsins að það hafi margoft bent á að töluverð brotalöm sé á því að fyrirtæki skrái erlenda starfsmenn eins og lög kveða á um.

Verkalýðsfélag Akraness haldi úti mjög öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu. Það sé gert til að tryggja að kaup og kjör séu eftir íslenskum kjarasamningum og einnig til að tryggja að starfsmenn séu skráðir í samræmi við lög og reglugerðir.

Vefur Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert