Bæta þarf við fimm nýjum salernum í miðborg Reykjavíkur að mati starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar um málefni almenningssalerna í Reykjavík. Einnig þarf að merkja betur og kynna nokkur velbúin salerni sem eru þegar í miðborginni.
Hrafnhildur Brynjólfsdóttir hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen skýrði umhverfisráði Reykjavíkurborgar frá niðurstöðum starfshópsins í gær. Hópurinn hafði farið vel yfir stöðuna í málaflokknum og gert tillögur til úrbóta.
Fram kemur á heimasíðu umhverfissviðs Reykjavíkur, að fimm sjálfvirk salerni eru nú í miðbænum: við Frakkastíg, í Mæðragarði, við Hlemm, við Vegamótastíg og við Ingólfstorg. Þá eru tvö vöktuð klósett í bænum, annað við Vesturgötu og hitt í Bankastræti 0 auk velbúinna salerna í Ráðhúsinu og bílastæðahúsum á vegum bílastæðasjóðs.
Á lista starfshópsins yfir bætt þjónustustig salerna er meðal annars nefnt að opna þurfi salerni í Mjóddinni fyrir almenning, setja salerni við Ægisíðu, Esjuna, í Hljómskálagarð, Nauthólsvík og við Austurvöll svo dæmi séu nefnd.