Öldruð kona í Mosfellsbæ brotnaði á hné og ökkla og fékk gat á höfuðið á mánudaginn í síðustu viku þegar hún reyndi að verja lítinn hund sinn, Kol, fyrir árás stærri hunds. Konan þurfti að gangast undir aðgerð í kjölfarið og liggur nú á sjúkrahúsi. Tvísýnt var um líf litla hundsins, sem er blendingshundur, í nokkra daga en hann er nú ekki lengur í lífshættu.
Dóttir öldruðu konunnar segir alltof mikil brögð að því að fólk sé með lausa hunda í Mosfellsbæ og geti slíkt haft alvarlegar afleiðingar.
„Mamma, sem er 75 ára, var að reyta arfa úti í garði og Kolur litli var hjá henni og var hann bundinn. Þá stekkur allt í einu inn í garðinn stór hundur sem var á gangi með eiganda sínum en ekki í taumi. Mamma datt um bandið sem Kolur var bundinn með þegar hún reyndi að verja hann. Hún skall með höfuðið í stéttina og þá kom gat á höfuðið á henni," greinir María Jónsdóttir frá.
Að sögn Maríu varð eigandi stóra hundsins miður sín vegna árásarinnar og kom móður hennar til aðstoðar. „Mamma vildi að vísu ekki fara með sjúkrabílnum sem sendur hafði verið á vettvang þar sem henni fannst hún ekki vera mikið slösuð en hún þáði far með lögreglu upp á heilsugæslustöð. Þar var sárið á höfði hennar saumað og fóturinn skoðaður. Talið var að hún væri með snúinn ökkla en á föstudag var hún orðin það illa haldin að fjölskyldan fór með hana á slysadeild. Þá kom í ljós að hún var brotin á tveimur stöðum og er óvíst hvort þetta mun skerða lífsgæði hennar," segir María.
Nánar í Blaðinu