Fjölmargir Íslendingar hafa komið sér upp heimasíðum og ekki er til sá stjórnmálamaður sem ekki notfærir sér þessa tækni til að koma sínum skoðunum á framfæri. Bæði Össur Skarphéðinsson og Björn Bjarnason halda úti vinsælum heimasíðum en það getur skipt töluvert miklu máli að eiga rétta lénið. Það er ekki sama hvort slegið er inn björn.is eða bjorn.is þó að við fyrstu sýn virðast heimasíðurnar ákaflega svipaðar.
Björn Swift er 24 ára nemi í hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands og hefur hann komið sér upp heimasíðunni björn.is, sem líkist mjög heimasíðunni bjorn.is, sem er heimasíða dómsmálaráðherra.
Fram kemur á heimasíðu Björns Swifts að hann hafi opnað síðuna á afmælisdaginn sinn á mánudag til að fylgja eftir hugmynd sem kviknaði í leiðigjarnri próflestrartörn, rúmum tveimur árum áður.