Slípaðir og óslípaðir demantar og hundruð demantsskartgripa verða meðal sýningargripa á ÍSMÓTI 2007 og er það í fyrsta sinn sem demantasýning opin almenningi er haldin hér á landi. ÍSMÓT 2007 er Íslandsmeistaramót hársnyrta, snyrtifræðinga, gullsmiða, klæðskera og ljósmyndara innan Samtaka iðnaðarins og verður haldið í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal helgina 1.-2. september.
Það er fyrirtækið Demantar.is sem sýnir demantana og hleypur heildarverðmæti sýningargripanna á hundruðum milljóna króna, að því er segir í tilkynningu.
Þar má til dæmis nefna demantshálsmen að verðmæti um 15 milljónir króna, demantshring sem kostar um 11 milljónir og óslípaðan 16 karata demant sem gæti orðið um 15 milljóna króna virði slípaður.
Auk Demanta.is mun verslunin Gull og Silfur sýna demantsskartgripi, auk þess sem 35 skartgripir keppa um titilinn „skartgripur ársins“. Eins og gefur að skilja verður öryggisgæsla mjög mikil þar sem þessi hluti sýningarinnar fer fram, enda mikil verðmæti í húfi, samkvæmt fréttatilkynningu.
Upplýsingar um sýninguna ÍSMÓT 2007