Grímseyjarferja „klúður á klúður ofan"

Grímseyjarferjan umdeilda.
Grímseyjarferjan umdeilda. mbl.is/Sverrir

Samgöngunefnd Alþingis ræddi m.a. um málefni Grímseyjarferjunnar á fundi í morgun og komu m.a. fulltrúar frá Vegagerðinni, fjármálaráðuneyti, samgönguráðuneyti og Ríkisendurskoðun á fund nefndarinnar og sátu fyrir svörum. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður nefndarinnar, sagðist vera ánægð með fundinn.

„Mér fannst hann upplýsandi, bæði stjórn og stjórnarandstaðan voru með málefnalegar og faglegar spurningar og fengu svör við þeim," sagði Steinunn Valdís.

Steinunn sagðist leggja áherslu á að menn læri af reynslunni og horfi til framtíðarinnar til að svona lagað endurtaki sig ekki.

Hún sagði að nú væri beðið eftir frekari skýrslum og upplýsingum um málið og að fyrr verði ekki teknar ákvarðanir um framhaldið.

„Þetta er bara klúður á klúður ofan, finnst mér og þegar maður kynnir sér aðdraganda málsins þá virðist allt hafa farið úr böndunum sem hægt gat," sagði Valdís.

„Mér finnst bara sorglegt að sjá þá sóun á fjármunum sem þarna hefur átt sér stað," sagði Steinunn Valdís.

Til að hindra að mistök sem þessi í framkvæmd fjárlaganna endurtaki sig telur Steinunn Valdís að það þurfi að tryggja að ferlar verði skýrari og að taka þurfi upp einhverskonar rammafjárlagagerð fyrir ríkisstofnanir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka