Öllum nemendum unglingadeilda við grunnskóla Reykjavíkur býðst frá og með þessu skólaári að stunda framhaldsskólanám í fjarnámi við Fjölbrautarskólann við Ármúla (FÁ) og verður það nám nemendunum og skólunum að kostnaðarlausu.
Skrifað var undir samning þar að lútandi milli Menntasviðs Reykjavíkurborgar og FÁ í dag. Skólinn hefur boðið upp á fjarnám frá árinu 2002 og frá upphafi hefur grunnskólanemum gefist kostur á að skrá sig í áfanga og hafa nokkrir skólar metið þá sem valfag í 9. og 10. bekk.
Á liðnu skólaári voru 173 grunnskólanemar í fjarnámi í FÁ á haustönn 2006 þar af 99 úr grunnskólum Reykjavíkur. Á vorönn 2007 voru þeir 125, af þeim 34 úr grunnskólum Reykjavíkur. Fram kom á blaðamannafundi í dag, að reynslan hafi sýnt að grunnskólanemar standi sig vel í fjarnáminu og hafi um 90% þeirra tekið lokapróf í völdum áfanga.
Allir fjarnámsáfangar FÁ eru settir upp í kennsluumhverfinu WebCT, sem er nokkurs konar kennslustofa á Netinu. Þar fara fram öll samskipti milli kennara og nemenda. Í kerfinu er m.a. námsefni, ítarefni, verkefni og próf.