steinthor@mbl.is
Nánast ekkert varp var á og við Tjörnina í Reykjavík í fyrra og árið þar á undan, en í ár varð aðeins vart við nýtt líf, að sögn Ólafs Nielsen, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun, og Jóhanns Óla Hilmarssonar fuglafræðings.
Varpið við Tjörnina hefur jafnt og þétt farið niður á við og ástandið var verst 2005 og 2006, að sögn Ólafs. Hann segir að svo virðist sem mjög lítið náttúrulegt æti sé í Tjörninni. Í skýrslu í fyrra hafi hann og Jóhann Óli stungið upp á því að reynt yrði að fóðra fuglana og hafi verið gerð tilraun til þess.
Jóhann Óli segir að varpið sé á niðurleið. Breyting á Hringbrautinni hafi haft sín áhrif og friðlandinu á milli hennar og Norræna hússins sé alls ekki nógu vel sinnt. Í vor hafi þar verið 20 gæsahreiður en lítið annað enda vilji endurnar ekki verpa þar lengur, hvort sem það sé vegna ágangs katta eða annars. Auk þess þrengi nýju byggingarnar á svæðinu að og búið sé að eyðileggja nær alla mýrina sem hafi verið í kringum flugvöllinn. Í vetur hafi líka verið hleypt úr Tjörninni án þess að spyrja kóng eða prest. Botndýralífið skipti mjög miklu máli fyrir afkomu andarunga og því sé ekki gott fyrir þetta lífríki að vatni sé hleypt úr Tjörninni.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.