Íslandspóstur opnar nýtt pósthús að Búðareyri 35 á Reyðarfirði föstudaginn 31.ágúst. Nýverið var opnað nýtt pósthús á Húsavík en þetta er hluti af áætlunum Íslandspósts að reisa 10 ný pósthús ásamt því að endurbyggja á 6 öðrum stöðum víðs vegar um landið.
Næsti áfangi í uppbyggingu þjónustunetsins verður opnun nýs pósthúss á Stykkishólmi um miðjan næsta mánuð. Framkvæmdir við fleiri pósthús eru vel á veg komnar og fyrr í sumar var tekin fyrsta skóflustungan að nýju pósthúsi á Akranesi. Í kjölfarið verða opnuð ný pósthús í Borgarnesi, á Sauðárkróki, Höfn í Hornafirði, Hvolsvelli, Vestmannaeyjum og Selfossi, en þessir staðir auk Reykjavíkur, Patreksfjarðar, Ísafjarðar, Blönduóss, Akureyrar, Egilsstaða og Keflavíkur hafa verið skilgreindir sem kjarnastaðir í starfsemi Póstsins, að því er segir í tilkynningu.