Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer í um 1000 útköll á ári vegna ágreinings í samböndum og vegna fyrrverandi sambanda. Í 200 tilvikum af þessum 1000 útköllum er um ofbeldi að ræða, að því er Rannveig Þórisdóttir, félagsfræðingur hjá lögregluembættinu, greinir frá.
Rannveig segir fjölda útkallanna hafa verið svipaðan frá árinu 2000. „Miðað við íbúafjölda getur verið um fækkun að ræða," segir Rannveig og bendir á að samfélagsaðstæður kvenna hafi verið að breytast. „Því hefur verið haldið fram að þær hafi meiri möguleika á að leita sér hjálpar en áður."
Könnun sem gerð var meðal sænskra lögreglumanna fyrir tveimur árum leiddi í ljós að meirihluti þeirra, eða um 60 prósent, telur sig hafa of litla þekkingu á kynferðisbrotum og ofbeldi gegn konum. Þátttakendur í könnuninni voru 700 lögreglumenn, víðsvegar um Svíþjóð. Rannveig minnist þess ekki að slík könnun hafi verið gerð meðal lögreglumanna hér á landi. „En ríkislögreglustjóri gerði átak hér í hittifyrra til að kynna þessi mál meðal lögreglumanna," greinir hún frá.
Samkvæmt nýrri sænskri könnun er ofbeldi gegn körlum algengara en ofbeldi gegn konum. Konur verða hins vegar fyrir alvarlegra ofbeldi en karlar og afleiðingarnar verða langvinnari.
Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri hjá Jafnréttisstofu, segir erfiðara að fá menn til að hætta andlegu ofbeldi en líkamlegu.
„Úttekt sem gerð var í Bretlandi fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að líkamlegt ofbeldi karla gegn konum minnkaði þegar þeir voru sektaðir, dæmdir í fangelsi eða dæmdir í meðferð."
Nánar í Blaðinu