20% af tíma Samkeppniseftirlitsins fer í málefni tengd matvörumarkaði

Gylfi Magnússon og Páll Gunnar Pálsson á blaðamannafundi Samkeppniseftirlitsins í …
Gylfi Magnússon og Páll Gunnar Pálsson á blaðamannafundi Samkeppniseftirlitsins í dag. mbl.is/Golli

Samkeppniseftirlitið hefur varið um 20% af ráðstöfunartíma sínum í málefni sem tengjast matvörumarkaði, frá miðju ári 2006 til miðs þessa árs. Á því tímabili hafa um 30 stjórnsýslumál verið til meðferðar sem tengjast matvörumarkaði. Þetta kemur fram í ársriti Samkeppniseftirlitsins sem kom út í dag og var kynnt á blaðmannafundi.

Á árinu 2006 lauk Samkeppniseftirlitið 104 stjórnsýslumálum en tók upp 106 ný mál til skoðunar. Aldurssamsetning mála er að færast í betra horf en hlutfallslega færri mál eru 1,5 árs gömul eða eldri nú en fyrir ári og hlutfall yngri mála að sama skapi hærra, samkvæmt því sem kom fram á blaðamannafundi hjá Samkeppniseftirlitinu.

Að sögn Gylfa Magnússonar, formanns stjórnar Samkeppniseftirlitsins, segist hann vera þess vísari að á fáum öðrum stöðum í heiminum er jafn mikil þörf á öflugu samkeppniseftirliti og hér á Íslandi.

Segir hann að þau íslensku fyrirtæki sem ekki eiga í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki virðast ekki halda uppi harðri samkeppni.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagði á blaðamannafundinum að 20% sé hátt hlutfall af ráðstöfunartíma Samkeppniseftirlitsins. Meðal þess sem er til skoðunar á matvælamarkaði er athugun á stöðu fyrirtækja í smásölu og hvort undirverðlagning hafi átt sér stað. Eins er verið að athuga viðskiptasamninga birgja og endurseljenda. Athugun á Mjólkursamsölunni, Osta- og smjörsölunni og tengdum fyrirtækjum stendur nú yfir. Jafnframt er verið að skoða innflutningsvernd á landbúnaðarvörum. Til greina kemur að beina áliti til landbúnaðarráðherra vegna samkeppnishindrana sem leiða af innflutningsverndinni.

Að sögn Páls Gunnars er til athugunar hvort um ólögmætt samráð hafi verið að ræða innan Samtaka ferðaþjónustunnar ma. í tengslum við aðgerðir stjórnvalda til að lækka matarverð með breytingum á virðisaukaskatti.

30-40 stjórnsýslumál tengd fjármálaþjónustu

Að sögn Páls Gunnars fer um það bil 20% af tíma Samkeppniseftirlitsins í málefni tengd fjármálaþjónustu. Frá því um mitt ár 2006 hafa milli 30 og 40 stjórnsýslumál af ýmsum toga sem tengjast fjármálaþjónustu verið til meðferðar.

Páll Gunnar segir að unnið sé að því setja skýrari reglur um samskipti Samkeppniseftirlitsins og lögmanna. Að sögn Páls Gunnars taka þessar breytingar gildi við birtingu í Stjórnartíðindum á næstunni.

Einstaklingar og fyrirtæki hvött til að upplýsa um ólöglegt samráð

Samkeppniseftirlitið getur samkvæmt nýjum samkeppnislögum ákveðið að kæra ekki til lögreglu brot einstaklinga sem upplýsa um samkeppnisbrot og liðsinna við rannsókn þeirra, að sögn Páls Gunnars. Lög nr. 52 tóku gildi þann 27. mars 2007 en þau eru lög um breytingu á samkeppnislögum nr. 44/2005.

Með breyttum lögum er undirstrikað hversu skaðleg samráðsbrot eru samfélaginu. Þetta er gert með því að afmarka refsiábyrgð einstaklinga við þau brot en einnig með því að hækka refsihámarkið vegna slíkra brota úr fjórum árum í sex ár. Brot einstaklinga sætir aðeins rannsókn lögreglu eftir kæru Samkeppniseftirlitsins, að því er fram kom í máli Páls Gunnars á fundi með blaðamönnum. Segir hann að brotleg hafi skýran hag af því að upplýsa um brot og liðsinna eftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið getur ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann, eða fyrirtæki sem hann starfar hjá eða er í stjórn hjá, haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða vegna ólögmæts samráðs sem geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti.

Samkeppniseftirlitið getur fallið frá sektarákvörðun hafi fyrirtæki verið fyrst til að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna ólögmæts samráðs.

Samkeppniseftirlitinu er heimilt að lækka sektir ef fyrirtæki hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar og gögn, að því er fram kom á blaðamannafundi hjá Samkeppniseftirlitinu.

Samkeppnislög

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert