„Þetta eru stór tíðindi í fornleifarannsóknum sumarsins,” segir Adolf Friðriksson forstöðumaður Fornleifastofnunar Íslands þegar bátkuml fannst í gær á eyðibýlinu Litlu-Núpum í Aðaldal. Um tvíkuml er að ræða því tveir fornmenn hafa verið heygðir í bátnum og fundust hauskúpur þeirra beggja auk lærleggja og annarra smærri beina. Bátkuml hefur ekki fundist á Íslandi í 43 ár og þetta er einungis sjötta bátkumlið sem finnst í landinu.
Báturinn mun hafa verið 7 metrar á lengd og 1,8 metrar á breidd. Fundurinn er einnig merkilegur vegna þess að þetta er töluvert langt inni í landi og því mörgum spurningum enn ósvarað um bátinn.
Rústir eyðibýlisins Litlu-Núpa eru fyrir margra hluta sakir athyglisverðar, en þær eru umluktar tveimur miklum garðlögum og túnin sem garðarnir afmarka eru óvenju stór. Innan túngirðingar er að finna fjölmargar tóftir og samkvæmt fornleifaskráningu sem gerð var sumarið 2003 afmarkar ytri túngarðurinn allt að 24 hektara svæði. Þar eru a.m.k. 13 tóftir og þrjú stór gerði, en öll þessi mannvirki eru fornleg og sigin að undanskildum beitarhúsunum sem eru mun yngri.