Borgarráð Reykjavíkur samþykkti í dag með 4 atkvæðum gegn 2 fundargerð skipulagsráðs borgarinnar varðandi heimild til niðurrifs húsanna að Laugavegi 4 og 6 og nýbyggingar á lóðunum. Málið kemur til lokaafgreiðslu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í næstu viku.
Á fundinum var jafnframt felld tillaga frá VG og F-lista um að borgarstjóra verði falið að leita leiða til þess að borgin festi kaup á húsunum í því skyni að varðveita þau í því sem næst upprunalegri mynd. Létu fulltrúar flokkanna tveggja bóka, að borgaryfirvöldum beri öðrum fremur að standa vörð um menningarsögu borgarinnar. Það sé því með ólíkindum að þau skuli ekki forða tveimur af elstu húsum borgarinnar frá tortímingu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks létu bóka, að ný afstaða Vinstri grænna og Samfylkingarinnar í borgarráði hljóti að vekja upp spurningar um trúverðugleika þessara flokka. Þeir hafi báðir haft forustu um að samþykkja deiliskipulag sem gerði ráð fyrir niðurrifi húsanna á Laugavegi 4-6 á síðasta kjörtímabili. Jafnframt hafi í deiliskipulaginu verið gert ráð fyrir því stórhýsi, sem æ síðan hafi verið í hönnun hjá arkitektastofum í bænum.
Í bókuninni segist meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks árétta áhuga sinn á því að varðveita merk hús í borginni og hafi til dæmis friðað Alliance húsið, sem fyrri meirihluti hafði áætlað að rífa, svo dæmi sé tekið.
Fulltrúar VG og F-lista létu á móti bóka, að viðhorf almennings til húsafriðunar hafi gerbreyst á skömmum tíma og æ fleiri telji það skammsýni að fórna elstu húsum Reykjavíkur fyrir steinsteypt háhýsi. Undir þá skoðun sé tekið.