Bretar fagna yfirlýsingu sjávarútvegsráðherra um hvalveiðar

Bretar fagna ákvörðun Íslendinga um að gefa ekki út nýjan …
Bretar fagna ákvörðun Íslendinga um að gefa ekki út nýjan hvalveiðikvóta. mbl.is/Árni Torfason

Phil Woolas, umhverfisráðherra Bretlands, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar þeirri yfirlýsingu Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, að ekki verði gefnir út nýir atvinnuveiðikvótar vegna hvalveiða fyrr en markaðir hafi opnast fyrir hvalafurðir.

Woolas segir, að bresk stjórnvöld hafi orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar Íslendingar gáfu út atvinnuveiðikvóta í október á síðasta ári. Hefði íslenska utanríkisráðuneytinu verið send formleg mótmæli vegna þessa.

Nú segist Woolas fagna yfirlýsingu Einars nú. „Við gerum okkur grein fyrir því hugrekki og þeirri skynsemi, sem að baki býr og ég vona að þetta jákvæða skref sé til marks um að bæði atvinnuhvalveiðum og annarskonar hvalveiðum verði hætt í framtíðinni," segir hann.

Woolas segir, að Ísland sé mikilvægur áfangastaður þeirra sem vilji sjá hvali í náttúrunni og ferðamenn, sem ferðist þangað frá öllum heimshornum til að skoða hvali muni fagna þessari ákvörðun. „Hvalveiðar munu ekki lengur varpa skugga á hvalaskoðunarstarfsemi á Íslandi og orðstír landsins varðandi ábyrga nýtingu þess á sjávarauðlindum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert