Icelandair hefur ákveðið að segja upp 25 flugmönnum og 39 flugfreyjum og flugþjónum, alls 29 stöðugildum, frá og með 1. desember nk. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfesti þetta í samtali við mbl.is. Guðjón segir að þetta muni ekki koma til með að hafa áhrif á áætlunarflug félagsins.
Guðjón segir stöðuna í alþjóðaleigufluginu vera óljósa á þessum árstíma. Unnið sé að því að afla arðbærra verkefna á þessu sviði. „Við vonumst til þess að það komi jákvæð niðurstaða út úr því á næstu vikum,“ sagði Guðjón.
Hann bætir því jafnframt við að öðru flugfólki verði boðið að taka launalaust leyfi, eða minnka við sig tímabundið í vinnu, á þessu tímabili. Uppsagnirnar voru tilkynntar starfsfólkinu í dag og í gær.
Guðjón bendir á að flugrekstur Icelandair snúist annarsvegar um áætlunarflugið og hinsvegar um alþjóðlegt leiguflug, sem starfsmenn Icelandair sinni fyrir loftleiðir. „Það er veruleg árstíðasveifla í þessari starfssemi, þannig að við erum með um 1.000 manns í flugstéttum, flugmenn annarsvegar og flugfreyjur og flugþjóna hinsvegar, yfir sumarið. En kannski um 700 yfir veturinn. Þannig að það koma um 300 manns á vorin og fara út á haustin,“ segir Guðjón. Staðan sé hinsvegar sú í leigufluginu að nauðsynlegt hafi verið að segja upp 64 fastráðnum starfsmönnum.