Bæjarfulltrúar og forystumenn Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við Jónmund Guðmarsson oddvita sjálfstæðismanna og bæjarstjóra og segjast harma þá aðför, sem gerð hafi verið að bæjarstjóranum í DV.
DV hefur síðustu daga birt fréttir þar sem segir, að bæjarstjórinn njóti ekki trausts félaga sinna í bæjarstjórn og þeir íhugi að segja honum upp störfum.
Í yfirlýsingunni segir að í síðustu bæjarstjórnarkosningum hafi listi sjálfstæðismanna hlotið 67,3% greiddra atkvæða og hafi meirihlutinn sýnt að hann njóti mikils trausts bæjarbúa sem hann muni áfram nýta til góðra verka í þágu Seltirninga allra.
Undir yfirlýsinguna skrifar stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélags Seltirninga, stjórn Sjálfstæðisfélags Seltirninga og bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og fulltrúar í bæjarmálahópi.