Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tók fyrir á fundi sínum í dag tillögu um að beina því til eigenda fyrirtækisins, Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar, að breyta rekstrarformi fyrirtækisins úr sameignarfélagi í hlutafélag. Engin áform eru uppi um að einkavæða OR, samkvæmt bókun meirihlutans í stjórn félagsins.
Í tilkynningu kemur fram að afgreiðslu tillögunnar var frestað, en samþykkt að senda hana fjölmiðlum þar sem fjarstaddir aðalmenn í stjórn, sem þó höfðu boðað varamenn sína, hefðu kosið að gera hana tortryggilega, að því er segir í fréttatilkynningu frá OR.
Boðaður hefur verið fundur í stjórn Orkuveitunnar á mánudag.
Í bókun meirihluta stjórnarinnar segir að verði tillagan samþykkt felist í því sóknarfæri fyrir Orkuveitu Reykjavíkur, hér á landi sem erlendis, en engin áform eigenda um sölu á eignarhlutum sínum. „Engar tillögur liggja fyrir um einkavæðingu fyrirtækisins og verða ekki fluttar af núverandi stjórn,“ segir í bókuninni.
Þar segir enn fremur: „Núverandi sameignarfélagsform leggur óþarflega miklar ábyrgðir á eigendur fyrirtækisins um leið og skýr merki eru um, að það sé farið að verða Orkuveitunni fjötur um fót í rekstri sínum, sérstaklega þeim hluta hans sem er á samkeppnismarkaði.
Sem fulltrúar allra eigenda Orkuveitunnar munu undirritaðir stjórnarmenn beita sér fyrir málefnalegri umræðu á vettvangi sveitarstjórnanna og öðrum opinberum vettvangi um rekstrarform fyrirtækisins.“
Undir þessa bókun skrifuðu stjórnarmennirnir Haukur Leósson formaður, Björn Ingi Hrafnsson varaformaður, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Gunnar Sigurðsson og Björn Bjarki Þorsteinsson, áheyrnarfulltrúi.