Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir fyrirhugaðar uppsagnir flugmanna hjá Icelandair hefðbundið ferli fyrirtækisins. „Þetta er nú orðið vanalegt á haustin, þegar áætlunarflug fer fækkandi og vetrarskjálftinn kemur yfir. En það eru fyrst og fremst vonbrigði að verkefnastaðan skuli ekki vera betri en raun ber vitni.“
Jóhannes bendir á að uppsagnirnar séu með þeim fyrirvara að um varúðarráðstöfun sé að ræða og einhverjar verði dregnar til baka fáist fleiri verkefni. „Þetta hefur verið gert á umliðnum árum, mismikið þó, og við vonum auðvitað að verkefnastaðan glæðist.“