Gjaldfrjáls aðgangur fyrir framhalds- og háskólanema í strætisvagna er að slá í gegn, en fregnir herma að nú séu þeir fullsetnir alla morgna. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið. "Þetta er að skila sér, sem betur fer, en aðallega á morgnana þegar fólk er á leið til skóla." Reynir segir Strætó hafa bætt við aukavögnum á þessum tíma svo nú komi þeir allt að þrír í einu á hverja stöð á helstu leiðum, auk þess sem aukavagnar hafi verið settir á leiðir þar sem slíkt hefur aldrei þurft áður.
Nokkuð hefur verið um misnotkun á afslættinum, en Reynir segir að þeir sem verði uppvísir að henni missi kortið varanlega. "Það er verið að rétta hverjum nemanda þrjátíu þúsund krónur. Þeir sem ekki standa undir ábyrgðinni missa kortin. Það verður engin miskunn."