Knattspyrnudómarinn sem varð fyrir líkamsárás eftir leik í utandeildinni á þriðjudagskvöld hefur ákveðið að kæra árásarmanninn. "Það er búið að gera lögregluskýrslu. [...] Hún er ekki komin inn en er á leiðinni," sagði dómarinn, Valur Steingrímsson, um miðjan dag í gær.
Stjórn utandeildarinnar hefur einnig kveðið upp úrskurð vegna málsins; niðurstaðan er sú að viðkomandi leikmaður, og árásarmaður, fær eins árs leikbann auk þess sem hann fær ekki að spila með liði sínu í þeim leikjum sem eftir eru af yfirstandandi tímabili. Í tilkynningu frá stjórninni segir m.a. "Við höfnum öllu ofbeldi, sama hver birtingarmynd þess er." Einnig er áréttað að viðlíka hegðun verði ekki liðin.
Ekki er vitað til þess að atvik sem þetta hafi áður komið upp í utandeildinni.