Ríflega 41% þjóðarinnar er almennt hlynnt einkavæðingu ríkisstofnana eða fyrirtækja í eigu ríkisins. Þetta er nokkuð lægra hlutfall en í Þjóðarpúlsi Gallup frá því í desember 2005 þegar 46% sögðust vera hlynnt einkavæðingu.
Að sama skapi hefur þeim sem eru andvígir einkavæðingu fjölgað um átta prósentur og eru nú 39%. Þegar spurt er um viðhorf til einkareksturs í skólakerfinu er 41% hlynnt sem er aukning um 16 prósentur frá árinu 2005.
Þeim sem eru hlynntir einkarekstri í heilbrigðiskerfinu hefur einnig fjölgað og eru nú 31%, samanborið við 25% 2005.
Karlar eru mun hlynntari einkavæðingu en konur, en 51% þeirra segist hlynnt einkavæðingu almennt á móti 30% kvenna. Um 31% karla er andvígt einkavæðingu en 47% kvenna. Eins eru karlar hlynntari einkarekstri í skóla- og heilbrigðiskerfi en konur.
Tekjuhæstu hóparnir eru hlynntari einkavæðingu heldur en þeir tekjulægstu og er fylgnin milli viðhorfs og tekna nokkuð mikil.
Fylgismenn Sjálfstæðisflokks eru hlynntari einkavæðingu en fylgismenn annarra flokka. Um 62% þeirra eru hlynntir einkavæðingu ríkisstofnana almennt, 53% einkarekstri í skólakerfinu og 47% í heilbrigðiskerfinu.
Stuðningsmenn Vinstri grænna eru andvígari en aðrir, einungis 17% þeirra eru hlynntir einkavæðingu en 60% eru henni andvígir. Um 30% vinstri grænna eru hlynntir einkarekstri í skólakerfinu og 19% í heilbrigðiskerfinu, sem líkist mjög afstöðu stuðningsmanna Framsóknarflokks. Um 36% framsóknarmanna eru hlynntir einkavæðingu almennt.
Um 38% þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna eru hlynnt einkavæðingu, 40% einkarekstri í skólakerfi og 28% í heilbrigðiskerfi.
Þá eru fleiri háskólamenntaðir hlynntir einkavæðingu en þeir sem minni menntun hafa, eða um helmingur þeirra.