Steingrímur: Hlutverk VG að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. mbl.is/Kristinn

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, gagnrýndi Samfylkinguna harðlega í ræðu sem hann flutti á flokksráðsfundi VG á Flúðum í dag. Sagði Steingrímur að það hafi markað tímamót að Samfylkingin ákvað að afsala sér því hlutverki, að vera höfuðandstæðingur Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum. Hafi Samfylkinguna skort bæði úthald og kjark til að vera mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn.

Steingrímur sagði ljóst að með því að ganga til stjórnarsamstarfsins í jafn ríkum mæli og raun bæri vitni á forsendum Sjálfstæðisflokksins og forsendum óbreyttrar stjórnarstefnu væri Samfylkingin auðvitað að gefast upp hugmyndafræðilega og afhenda öðrum keflið þótt hugmyndafræðilegir forystutilburðir Samfylkingarinnar hafi ekki verið upp á marga fiska fyrir.

Þá sagði hann, að VG væri nú eini flokkurinn sem gæti tekið að sér það verkefni að vera mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki yrði það Framsóknarflokkurinn næstu árin, sem væri tærður upp af sambúðinni við íhaldið. Ekki heldur Frjálslyndir, sem væru hægra megin við miðju frekar en hitt. Þetta væru óumdeilanlega mikil tímamót, líkleg til að hafa veruleg áhrif á þróun íslenskra stjórnmála á komandi árum þó lítið hafi farið fyrir umræðum þar um ennþá.

Steingrímur sagði að VG muni halda áfram uppbyggingarstarfi flokksins, safna áfram liði, vinna að stefnumótun, útfæra og dýpka hugmyndafræðilegan grundvöll flokksins og ekki síst að vera boðberar nýrra hluta inn í stjórnmál landsins. Hann sagði flokkinn hafa þegar áorkað miklu í þeim efnum, komið nýjum hlutum á dagskrá, sett mark sitt á umræður og gjörbreytt umfjöllun íslenskra stjórnmála. Þar sé nærtækast að nefna umhverfismálin, kvenfrelsis- og jafnréttismálin, velferðarmálin, utanríkis- og alþjóðamálin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka