Valur Þórsson sigraði í hálfmaraþonhlaupi karla í Brúarhlaupi Selfoss sem fór fram í dag. Annar var Birkir Marteinsson og Guðmann Elísson varð þriðji en allir eru þeir í ÍS. Jórunn Viðar Valgarðsdóttir frá Frískum Flóamönnum sigraði í kvennaflokki, Jónína Gunnarsdóttir úr Garðabæ varð önnur og Kristín Guðmundsdóttir frá Laugaskokki varð þriðja.
Hlaupið var að venju ræst á Ölfusárbrú enda dregur það nafn sitt af brúnni en fyrsta Brúarhlaupið fór fram 1991 á 100 ára afmæli brúarinnar og hefur verið árlegur viðburður síðan fyrstu helgina í september. Að þessu sinni var Landsbankinn aðalstyrktaraðili hlaupsins.
Sigurður Hansen frá Laugaskokki var fyrstur í 10 km hlaupi karla, Steinn Jóhannsson, FH, annar og Vignir Már Lýðsson, ÍR, varð þriðji. Una Hlín Valtýsdóttir, Laugaskokki, var fyrst í kvennaflokki, Borghildur Valgeirsdóttir, Selfossi, önnur og Bára Ketilsdóttir, Hádegisskokki, þriðja.
Öll úrslit í hlaupinu eru birt á heimasíðu Árborgar .