Ætla að flytja út vatn úr Vestfjarðagöngum

Halldór Guðbjarnarson og Halldór Halldórsson undirrita áformsyfirlýsinguna að viðstöddum nefndarmönnum …
Halldór Guðbjarnarson og Halldór Halldórsson undirrita áformsyfirlýsinguna að viðstöddum nefndarmönnum í atvinnumálanefnd Ísafjarðar og forseta bæjarstjórnar. mynd/bb.is

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, og Halldór Guðbjarnarson, eigandi Brúarfoss ehf., undirrituðu í gær áformsyfirlýsingu vegna fyrirhugaðar átöppunar og útflutnings á vatni úr Vestfjarðagöngum. Brúarfoss áformar að flytja út vatn í gámum í þar til gerðum blöðrum, beint til aðila sem þurfa ferskt vatn í sína starfsemi, svo sem bjór- og vínframleiðendur, snyrtivöruframleiðendur og lyfjafyrirtæki.

Halldór Guðbjarnarson gerði við þetta tækifæri grein fyrir fyrirætlunum sínum og kom meðal annars fram í máli hans að fjármagn í verkefnið kæmi nær eingöngu erlendis frá. Sagði hann að hugmyndin væri ekki að tappa vatni í neytendaumbúðir. Ástæður þess eru margar, m.a. væri erfitt að markaðssetja slíka vöru þar sem vatnið kemur úr jarðgöngum með bílaumferð.

Sagði Halldór, að menn á hans vegum hefðu komið vestur, kannað aðstæður og komist að því að vatnið væri afburðahreint. „Það, auk hafnaraðstöðunnar sem hér er fyrir hendi, er lykillinn að þessu,“ sagði Halldór.

Áformsyfirlýsingin felur það í sér að aðilar leitist við að gera samning um forgangsrétt Brúarfoss til tiltekins magns vatns frá Ísafjarðarbæ sem væri umfram vatnsþörf í sveitarfélaginu, og að leitast verði við að ná samkomulagi um endurgjald fyrir vatnið. Yfirlýsingin gildir til loka árs 2008 og á þeim tíma mun bærinn ekki taka upp viðræður um vatnssölu til annarra aðila. Á móti mun Brúarfoss eigi síðar en eftir hálft ár, leggja fyrir Ísafjarðarbæ staðfestar upplýsingar um ráðgert hlutafé félagsins og aðra fjármögnun verkefnisins, kostnaðar- og rekstraráætlanir og áætlanir um nauðsynlegar framkvæmdir.

Halldór Guðbjarnarson sagði við undirritunina að reikna mætti með því að verkefnið kosti á bilinu 2-3 milljarða króna. Byggja þyrfti upp aðstöðu á Ísafjarðarhöfn fyrir geymslu og átöppun og jafnvel fjárfesta í nýrri vatnsleiðslu. Þá þyrfti væntanlega að ráðast í dýpkunarframkvæmdir. Sagði hann að markaðsmál yrðu alfarið í höndum þeirra erlendu aðila sem koma að verkefninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert