Vinstrihreyfingin – grænt framboð sendi í dag frá sér ályktanir sem samþykktar voru á flokksráðsþingi flokksins, sem staðið hefur yfir á Flúðum um helgina. Í ályktununum er m.a. hvatt til þess að Orkuveita Reykjavíkur verði áfram í almannaeigu og að að rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði unnin áður en farið verði af stað í frekari framkvæmdir.
Í ályktun um lýðræði og umhverfi segir að stöðugt gætii aukinnar ásælni raforkufyrirtækja í að virkja straumvötn og jarðhita til stóriðju og hafi þau notið til þess stuðnings og velvilja ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma sé þrengt að sveitarfélögum, og þau beitt þrýstingi við skipulagsgerð.
Í ályktuninni er þess krafist að grundvallar stefnumótun á borð við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sé unnin áður en lengra er haldið. Heildstæð áætlun um auðlindanotkun, landnýtingu og landsskipulag byggi á því að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð og íbúum sveitarfélaga gefið það svigrúm sem nauðsynlegt er til að ná farsælum niðurstöðum í umdeildum skipulagsmálum.
Þá segir í ályktun flokksráðsins um Orkuveitu Reykjavíkur að ákvarðanir á borð við boðaðar breytingar á rekstri fyrirtækisins eigi að taka á grundvelli umræðu þeirra sem eru til þess kjörnir og að lýðræðið sé haft að engu með ákvörðuninni. Þá ítreka vinstri-græn afstöðu sína um að hagkvæmara sé fyrir samfélagið sjálft að eiga og ráðstafa þeim arði sem kann að verða til í slíkum fyrirtækjum beint til samfélagslegra verkefna heldur en að svokallaðir fjárfestar fái að taka arðinn jafnharðan út úr fyrirtækinu í eigin þágu.
Í ályktun um friðar og utanríkismál segir m.a. að staða Íslands verði best skilgreind með því að leggja grunn að sjálfstæðri og óháðri utanríkis- og friðarstefnu sem haldi í heiðri og virði vopnleysis- og friðararfleifð íslensku þjóðarinnar. Þá er ríkisstjórnin gagnrýnd fyrir að hafa ekki lagt grunninn að slíku og að boðaður samskiptavettvangur stjórnmálaflokkanna á sviði öryggismála hafi ekki verið mótaður.
Þá hvetur flokksráðið til víðtækrar umræðu í þjóðfélaginu um framtíð almannaþjónustu á Íslandi. Segir flokksráðið óviðunandi sé að stjórnmálaflokkar komist til valda á grundvelli loforða um uppbyggingu á ýmsum grunnþáttum en ráðist síðan í breytingar sem hafa afgerandi neikvæðar afleiðingar um ókomna tíð.